Steingrímur Páll

Síða um sætan gæja :-

Saturday, September 30, 2006

Tárvott afmæli og afslappað kvöld

Steingrímur borðaði vel af hádegismatnum, át kúffullan disk ! Ekkert lystarleysi að plaga menn lengur :-)) Við brunuðum svo á Selfoss klukkan rúmlega hálf tvö. Við fundum húsið hennar Sonju með hjálp Gunnu, en vorum fyrst búin að villast aðeins um bæinn ! Við fengum okkur köku um leið og inn var komið og Steingrímur hesthúsaði heilli sneið af skúffuköku. En um leið og síðasti bitinn fór inn fyrir varirnar steinsofnaði hann. Hann var því lagður inn í rúmið hennar Sonju. Eftir uþb. 30 mínútur heyrðist skerandi grátur. Ég hljóp til og var unginn þá vaknaður hágrátandi. Hann grét í amk 40 mínútur en þá fann Sonja snuð handa honum og þá gat hann loksins slakað á. Afmælið fór því fyrir ofan garð og neðan en hann náði amk að sýna þeim áður en hann sofnaði hve duglegur hann er í göngugrindinni. Því miður eru engar myndir úr afmælinu þar sem gráturinn tók upp allan tímann :( En svo brunuðum við í bæinn. Og þá uppgötvaði ég við Litlu kaffistofuna að ég gleymdi pokanum með bleyjunum og bleyjuþurrkunum á Selfossi ! Þar sem lítið var eftir af bleyjum heima skelltum við okkur í Bónus. Steingrímur var þá kominn í glimrandi skap og hló og brosti meðan við biðum eftir afgreiðslu :-) Svo fórum við heim og fengum Sigrúnu og Víði Davíð son hennar í heimsókn. Steingrímur borðaði kvöldmat og fékk svo að hanga með okkur í stofunni þangað til að kominn var tími á að fara í háttinn. Víðir gáði að honum reglulega og gat fljótlega sagt okkur að litli herrann væri sofnaður. Hann sefur vonandi vært í nótt :)

0 Comments:

Post a Comment

<< Home