Steingrímur Páll

Síða um sætan gæja :-

Saturday, December 16, 2006

Verslunarleiðangur eftir erfiða nótt

Nóttin var Steingrími erfið. Hann vaknaði hvað eftir annað og öskraði af öllum kröftum. Erfitt var að hugga hann, snuð og knús dugðu lítið. Hann vaknaði svo klukkan 8 og hámaði í sig fullan disk af hafragraut. Jólasveinninn færði honum mandarínu og hann smakkaði aðeins á henni. Hann var ekki í neinu sérstöku stuði um morguninn og rak stundum um öskur og var ósáttur. Svo kom hádegismaturinn og unginn borðaði líka fullan disk þar, ekki var skapið að spilla matarlystinni :-) Eftir hann var lagt af stað niður í bæ og fyrsti stopp var hjá Svanhildi og fjölskyldu. Herrann ungi steinsofnaði hinsvegar á leiðinni þannig að hann náði ekkert að hitta gæjana þar. Því næst fórum við í Smáralindina þar sem ég og Hilda gerðum jólagjafainnkaup. Steingrímur var bara hress í kerrunni, en ferðin byrjaði inni á skiptiherbergi þar sem að dulafull lykt var farin að fylla bílinn þegar við vorum að koma. Svo var brunað um búðirnar og við fengum okkur hressingu í Hagkaupssjoppunni. Steingrímur sló íslandsmetið í að klára kókómjólk, svo hratt hvarf hún ofan í hann ! Við fengum svo nóg af þessu og héldum heim á leið. Herrann borðaði mjög vel í kvöldmatnum líka og drakk vel með. Eftir mat var hann að bisast inni í stofu og reyndi að klifra upp í gamla hægindastólinn minn. Hann var kominn langleiðina upp þegar hann hætti við, á meðan ég hljóp og sótti myndavélina (urr). Hilda reyndi að lokka hann aftur upp í stólinn, hann byrjaði aðeins að klifra aftur en nennti svo ekki meir. Hann sofnaði kl. 9, alveg rólegur í rúminu og ekkert rölt ! Vonandi sefur hann eins og engill í nótt.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home