Steingrímur Páll

Síða um sætan gæja :-

Sunday, December 17, 2006

Óli Lokbrá kom í heimsókn í dag !

Nóttin var mun betri núna, litli karl vaknaði einu sinni mjög illa en svar frekar vel eftir það, bara smá óróleiki af og til. Hann vaknaði rétt fyrir átta og borðaði hafragrautinn sinn án nokkurra mótmæla. Hann var samt frekar rólegur um morguninn og kl. 11 sofnaði hann aftur. Kl. hálf eitt reis minn upp úr rúminu og ég sagði við hann, jæja, mikið var, kominn tími á mat. En þegar ég fór að hafa mig til kom Hilda og ég sagði, loksins er hann vaknaður og hún sagði: nei, hann liggur hér sofandi. Ég leit þá í rúmið og viti menn, hann var steinsofnaður aftur! Hann svaf til hálf tvö og hakkaði í sig hádegismatinn, glorhungraður örugglega eftir allan svefninn. Eftir matinn skruppum við í verslunarleiðangur. Við fengum fljótt nóg af Kringlunni og héldum heim á leið. Herrann fór á röltið um íbúðina og var t.d. að henda niður töskum sem hengu á hurðarhúninum í svefnherberginu og að labba meðfram veggnum við útidyrnar. Varð rosa pirraður þegar hann var stoppaður í þessu ! Þegar ég var að hafa til kvöldmatinn kom hann skríðandi inn í eldhús, var greinilega orðinn svangur og nennti ekkert að bíða eftir matnum lengur ! Í kvöldmatinn var sælkeramatur, grísasteik með hrísgrjónum, sætum kartöflum og rjómasveppasósu. Heill diskur hvarf ofan í minn mann án þess að hikað væri einu sinni ! Svo eftir matinn var aðeins rölt um, svo var kominn tími á rúmið. Minn sofnaði upp úr tíu, aðeins órólegur en vonandi verður nóttin góð.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home