Steingrímur Páll

Síða um sætan gæja :-

Saturday, April 21, 2007

Kíkt á vetrarblóm við Kleifarvatn

Litli unginn átti erfiðan morgun. Hann vaknaði rétt fyrir átta og var strax frekar órólegur. Hann tók mörg grátköst um morguninn og var lítið hægt að gera. Hann vildi hvorki labba né sitja né drekka. Helst var hann rólegur í fanginu á mér á labbi, rétti oft hendurnar til mín og bað mig að taka sig. Eftir smástund vildi hann samt alltaf niður. Hádegismaturinn fór ofan í hann, með nokkurri fyrirhöfn þó. Eftir hádegið fór hann svo að hressast. Við brugðum okkur aðeins í Smáralindina og þar sat hann með krosslagðar fætur í kerrunni og horfði á mannlífið. Snuddan var með í för, í hvert sinn sem reynt var að fjarlægja hana var mótmælt kröftuglega. Síðan fórum við með Steinku systur og Guðlaugu frænku að Kleifarvatni að kíkja á vetrarblóm. Það er svo gaman að sjá þau á vorin, eru fyrstu blómin sem blómstra. Við fundum fullt af vetrarblómum og skoðuðum flotta kletta við vatnið. Steingrímur fékk að sitja inn í litlum hellisskúta og líka að labba í sandinum við Stefánshöfða. Hann vildi reyndar labba út í stóran poll sem var þarna en ég kom í veg fyrir það :-) Veðrið var mjög gott og mjög gaman hjá okkur. Síðan stoppuðum við aðeins hjá Steinku og þar fékk gaurinn síðdegishressingu. Svo var haldið aftur heim og þar tók hann góðan lúr. Frekar erfiðlega gekk að koma í hann kvöldmatnum en hálfur diskur fór þó sína leið. Hann sofnaði svo rúmlega hálf tíu en var í fínu formi þangað til. Vonandi vaknar hann hress og kátur !

0 Comments:

Post a Comment

<< Home