Steingrímur Páll

Síða um sætan gæja :-

Saturday, April 30, 2005

Farið í ferðalag

Eftir að hafa fengið gulrótarstöppu og harðsoðið egg í hádegismat var Steingrímur til í tuskið og við fórum í ævintýraferð með systrum mínum og mömmu. Við vorum allar með nema Helen. Ég og Steingrímur vorum ein saman í bíl. Eftir smá keyrslu var hann farinn að kvarta hástöfum yfir sólinni sem skein inn í bílinn. Ég dó ekki ráðalaus þótt ég hefði enga sólhlíf, tók stuttermabol úr íþróttatöskunni og festi hann í rúðunni. Þar með var málið leyst, og ungi maðurinn svaf alla leiðina til Hveragerðis. Þegar þangað var komið vaknaði hann og við fórum og skoðuðum okkur um í Eden. Síðan var farið í Sólheima í Grímsnesi. Þar fékk Steingrímur kleinu á kaffihúsinu og svo skoðuðum við búðina. Ég keypti mér dúk og grænmetismauk. Að þessu loknu brunuðum við til Stokkseyrar og fórum á veitingahúsið Fjöruborðið. Þar snæddum við Steingrímur eðal humarsúpu með frábæru brauði. Honum fannst æðislegt að fá brauðbita vætta í súpu, og borðaði mjög vel. Í eftirmat var ávaxtamauk sem við fengum hjá Ólafi Steinari og lyfin fóru niður með því. Við keyrðum svo Þrengslaveginn heim og mér til undrunar sofnaði drengsi ekki á leiðinni ! Eftir tannburstun og þvott var kúturinn lagður í rúmið, hann neitaði samt að sofna fyrr en hálf níu. Þreyttur eftir langan dag !


Ó, er þetta tuskuhumar, ég hélt ég ætti að borða hann ! Steingrímur á veitingastaðnum Fjöruborðinu á Stokkseyri
 Posted by Hello


Steingrímur og Ólafur Steinar í einkabílunum sínum í búðinni í Sólheimum.
Posted by Hello

Hress klukkan sex

Steingrímur vaknaði eins og spáð hafði verið kl. 6. Hann var í góðu skapi, blaðraði og lék sér að dóti. Kl. 7 fengum við okkur morgunmat, hafragraut með banana (ég sleppti reyndar banananum hjá mér) og hann drakk fullan pela af eplasafa. Síðan fórum við fram í stofu og horfðum á gamlan þátt af ER, svo fór Steingrímur á leikteppið. Hann var nú ekki mikið á því samt, var fljótur að velta sér í burtu :-) Um hálf ellefu varð hann allt í einu syfjaður og ég setti hann inn í rúm. Hann tók þá hálftíma bjútíblund og þegar hann vaknaði fór hann að faðma bangsann sinn og sveifla fótunum á fullu :-) Nú erum við að fara að borða hádegismatinn, meira síðar.


Steingrímur og bangsi  Posted by Hello

Friday, April 29, 2005

Grillpartý í Kópavogi

Jæja, þá er uppáhalds karlinn minn kominn til mín aftur ! Foreldrar hans og systir komu með "deitið" mitt um hálf sjö og við fórum beint af stað í Kópavoginn í grillmat hjá Steingerði systur. Ungi maðurinn var hinsvegar svo þreyttur að hann steinsofnaði áður en maturinn varð til. Það varð því að vekja hann til að gefa honum að borða en það var ROSALEGA ERFITT að opna augun ! Þannig að..... Steingrímur er einn af fáum sem getur borðað...SOFANDI :-) ! Hann var með lokuð augun en tók samt við matnum af ákafa. Grísalærisneið með kartöflusalati er greinilega góður matur. Ekki spillti svo að fá ís í eftirmat :-) Freyja hundur var frekar feimin við Steingrím en ryksugaði hann samt allan með nefinu, knúsaði hann svo aðeins með köldum nebba svo hann fékk hroll. Eftir matinn var hann fljótur að dotta aftur svo við drifum okkur heim, ég klæddi hann úr og tannburstaði og eftir afar stuttan tíma var hann kominn í draumalandið á ný. Hann gæti hinsvegar orðið hress í fyrramálið :-)


Steingrímur fær knús frá Steingerði
Posted by Hello