Steingrímur Páll

Síða um sætan gæja :-

Friday, March 25, 2005


Steingrímur í nýja standinum sínum Posted by Hello

Heimsókn í Mosó

Ég skellti mér í heimsókn í Mosó á föstudaginn langa en Steingrímur var steinsofandi þegar ég kom svo að ég fór bara með mömmu hans út og viðraði hana :-) Þegar við komum heim fórum við að spila, en eftir skamma stund kom pabbi niður stigann með nývaknaðan ungan mann með hárið út í loftið. Ég fékk auðvitað gæjann beint í fangið og naut þess að knúsa hann smá. Það kostaði dálítil slagsmál að passa að hann myndi ekki "hjálpa" mér í spilinu. Síðan bað ég mömmu um að sýna mér hvernig herrann væri þegar hann væri settur í standinn sinn. Við spenntum hann því fastan í standinn og hann stóð þar ánægður í augnablik. Því miður fékk hann svo flogakast svo við leystum hann strax og settum á teppið. Kastið var í tvær mínútur og blessaður anginn var örmagna eftir það. Enda var hann pirraður seinna þegar ég þurfti að trufla hann með því að klæða hann í sparfötin, en hann var að fara í mat til ömmu. Hann róaðist reyndar þegar pabbi birtist með dudduna, hún bjargar nú mörgu :-) Það var því þreyttur snúlli sem ég kvaddi, sem vonandi fær nú einhverja lausn hjá lækninum eftir helgi, og vonandi fær ekki fleiri köst núna um páskana.

Sunday, March 20, 2005

Erfið nótt, góður dagur

Steingrímur svaf mjög illa síðustu nótt, vaknaði stundum hágrátandi og greinilega eitthvað að plaga hann. Mér tókst að róa hann með því að leggja hann á hliðina og strjúka magann á honum. Blessaður karlinn ! :-( Um morguninn var hann því ekki alveg eins hress og í gær, var samt að dunda sér í dótinu á teppinu. Klukkan rúmlega 10 sofnaði hann svo og svaf í tvo tíma, enda þreyttur eftir nóttina. Við fórum svo til Kristínar Önnu í heimsókn og þar fékk hann góðar veitingar. Hann borðaði fyrst steikt eggjabrauð og skolaði því svo niður með einum og hálfum Svala ! Svalinn var greinilega MJÖG góður, hann strauk fernunni og reyndi að kreista meira úr henni þegar hún var búin. Gargaði svo reiðilega þegar hún var tekin af honum og róaðist ekki fyrr en búið var að stinga rörinu á næsta svala upp í hann. Hann teygði sig á móti nýju fernunni, æstur í drykkinn! Börnin hennar Kristínar léku við gæjann, Helga María fann handa honum spegil og las fyrir hann. Steingrími virtist líka vel við Kristínu sem fékk fullt af brosum :-) Svo sýndi hann hvað hann er orðinn duglegur þegar hann var settur í sófann. Þá reisti hann sig upp að sjálfsdáðum frá sófabakinu og sat sjálfur á sófanum, óstuddur ! Duglegur ! Svo var víst kominn tími að skila litlum manni heim, á leiðinni sofnaði ungi maðurinn en vaknaði eftir lúrinn heima hjá pabba, mömmu og stóru systir :-) Góð helgi, en við munum örugglega bæði sofa fastar í nótt :-)


Ahh, það er gott þegar Kristín bankar á mér bakið Posted by Hello


Helga María les fyrir Steingrím Posted by Hello


Mér finnst Svali æðislega góður ! Posted by Hello

Saturday, March 19, 2005

Sumir voru þreyttir og sofnuðu snemma

Jæja, hann gat ekki haldið áfram endalaust :-) Eftir að hafa borðað kjúkling og hrísgrjón með smá melónu í eftirmat, sofnaði lítill maður klukkan hálf átta. Og hrýtur hástöfum, enda svolítið kvefaður. Það komu bara tvær að þeim sem ætluðu að kíkja í heimsókn, þær Gunna og Sif, og þær fóru inn í herbergi og fengu að kíkja á gaurinn sofandi í nýju náttfötunum. Best að fara að sofa sjálf, lillemand vaknar örugglega snemma !


Dauðþreyttur ungur maður að sofna í rúminu. Takið eftir rúllupúðanum, hann er mjög vinsæll til að strjúka og berja í :-) Posted by Hello

Stuðbolti sem þarf ekki að sofa !

Steingrímur vaknaði kl. 6:40 og var í góðu skapi. Byrjaði strax að spjalla hástöfum :-) Í morgunmat fékk hann fullan disk af hafragraut með banana og melónu. Þessu skolaði hann niður með fullri könnu af eplasafa. Síðan lék minn maður sér á fullu til kl. 9, svaf í tæpar tuttugu mínútur og var svo í banastuði til hádegis. Sat eins og kóngur á teppinu inni í stofu og rúllaði sér svo út um allt. Eftir hádegismatinn (grænmetisstappa og Rice Crispies í eftirmat)hélt ég nú að herrann myndi leggja sig en nei nei, það var blaðrað, leikið sér og spriklað, svo að kl.hálf þrjú skelltum við okkur í Smáralindina með Gunnu og Óskari. Steingrímur lagði sig í 10 mínútur en vaknaði um leið og við stigum inn í lyftuna til að fara í Debenhams. Hann og Óskar héldust rólegir í búðarrápinu ef þeim var stillt á móti hver öðrum. Í Baby Sam keyptum við marglitar dollur sem hægt er að stafla í turn og herraleg ljósblá náttföt með röndum. Verður gaman að sjá herrann í þeim í kvöld :-) Nú erum við kominn heim og Steingrímur búinn að drekka næstum heila Kókómjólk til að hressa sig. Gaman að drekka með röri :-) Við ætlum aðeins að slappa af og elda svo kvöldmatinn :-)


Steinsofandi í Smáralind Posted by Hello


Hæ Svava, af hverju ertu svona syfjuð á svipinn, klukkan er jú orðin 8 Posted by Hello

Friday, March 18, 2005

Duglegur strákur !

Steingrímur var í góðu stuði þegar hann kom til mín í kvöld. Hann spjallaði heil ósköp, hló og brosti og velti sér um allt gólf ! Mér tókst þó að veiða hann í fangið og gaf honum eggjaköku með grænmeti í kvöldmatinn. Hann borðaði bara vel og drakk fulla stútkönnu af eplasafa með. Svo eftir matinn lékum við okkur á teppinu og Steingrímur sýndi mér hve duglegur hann er orðinn að sitja ! Flottur strákur ! Gott að hafa stóran púða á bak við, enda þegar minn var orðinn þreyttur lét hann sig detta aftur á bak á púðann og lék sér þar með nýja gula boltann sinn. Klukkan níu var minn svo farinn að nudda augun á fullu og sofnaði eftir bleyjuskipti kl. 21.24. Þrátt fyrir mikinn svefn í dag ! Kannski vaknar maður snemma í staðinn :-)


Sofið sætt :-D Posted by Hello


Þegar maður verður þreyttur á setum er gott að chilla á púðanum með boltann sinn :-) Posted by Hello


Sko Svava, ég kann alveg að sitja ! Posted by Hello