Steingrímur Páll

Síða um sætan gæja :-

Sunday, February 27, 2005

Sumir voru hressir allan morguninn !

Steingrímur vaknaði kl. 7:15, aldrei hressari. Slengdi litlum fæti yfir til mín og byrjaði að blaðra. Eftir morgunmat fórum við inn í stofu en um hálf tíu virtist sá stutti vera orðinn syfjaður svo við fórum aftur upp í rúm. Þar varð hinsvegar bara hörkustuð á mínum manni, miklir mjaðmahnykkir og veltingur og blablablabla :-) Ég fór fram um kl. hálf tólf að útbúa hádegismat, þegar ég kíkti aftur inn þá var karlinn sofnaður ! Hann svaf í 2 tíma, fékk sér svo mat og drakk vel með honum, í fyrsta sinn alla helgina, en hann hefur ekki verið duglegur að drekka. Er nú að leika sér að boltanum og tala um mamamama og papapapa. Sennilega farið að hlakka til að sjá þau. Afar hugguleg helgi hjá okkur tveimur :-)


Hæ, ertu alltaf með þessa myndavél ? Má maður ekki leika sér í friði ? Posted by Hello

Saturday, February 26, 2005

Afmælisveisla :-) og háttatími

Við Steingrímur fórum í 4 ára afmælisveislu Margrétar Erlu, dóttur Ágústu. Á staðnum var heill hópur af gæjum. Aron Ingi og Sindri eru aðeins eldri en Steingrímur en Óskar litli er 11 mánaða. Þessir gæjar sáu um að halda fjörinu í afmælinu gangandi. Aron Ingi kom og reyndi að gefa Steingrími að drekka úr tómri Fresca flösku og var hann hissa á því að ekkert var í henni, opnaði munninn tilbúinn að drekka. Gaurinn fékk svo að bragða á tertunum og fannst það alls ekki leiðinlegt. Mmmmm, rjómi og súkkulaði ! Svaka stuð að fara í afmæli. Að vísu var Óskar aðeins of innilegur í áhuga sínum á Steingrími og úr varð smá grátur, en það fannst Óskari bara fyndið. Hinn jafnaði sig til allrar lukku fljótt. Kvöldmaturinn var svo ýsa með kartöflum, smjöri og brokkóli og var tekið vel við. Steingrímur fór svo í nýja náttgallann og fékk að horfa á brunadrama með mér út um gluggann, en það kviknaði í raðhúsinu hérna við hliðina á ! Svo fór unginn í rúmið kortér í níu og sofnaði nær því um leið. Og þar sefur hann sætt og rótt :-)


Sumir veltu sér af teppinu yfir á gólfið til að kíkja á sjónvarpið :-) Posted by Hello


Aron Ingi býður upp á drykk Posted by Hello


Steingrímur fékk sér sæti í afmælinu Posted by Hello

Góður morgun, ferð í Smáralind

Steingrímur vaknaði kl. 7 og var í góðu stuði. Hann fékk töfluna sína og slappaði svo af með dótið sitt. Tók rauða hringinn með hvítu doppunum og lék sér heillengi með hann. Hann setti hann upp að munninum og talaði og hló í gegnum gatið :-)) Svo var tekinn lúr frá rúmlega hálf tíu til ca. kortér yfir ellefu og þá fengum við okkur pasta í hádegismat. Ekki var annað að sjá en pasta með skinkubitum og ostasósu væri bara fínasti matur fyrir litla mann sem borðaði vel. Síðan drifum við okkur í Smáralindina með Gunnu og Óskari syni hennar. Óskar var afar hrifinn af Steingrími og fengu þeir félagarnir aðeins að spjalla. Þegar þau fóru heim röltum við Steingrímur um og skoðuðum í búðir. Þegar við vorum að bakka út úr búð með nýjann náttgalla á herrann rákumst við á mömmu, pabba og Evu ! Voru það fagnaðarfundir :-) Og þá fékk ég að vita að ekki væri góð hugmynd að láta gæjann sofa svona lengi á morgnanna, enda nú er klukkan að verða 4 og minn enn í stuði :-) Við keyptum lítinn bolta í Hagkaup sem sló alveg í gegn, sjá myndir hér að neðan. En nú erum við að fara að undirbúa ferð í afmæli, meira síðar !


Best að skella honum ofan á snudduna :-) Posted by Hello


Vá, flottur þessi bolti ! Posted by Hello


Mmmm, jafnast ekkert á við Pripps með Idolinu Posted by Hello

Friday, February 25, 2005

Lítill gaur mætir á svæðið !

Steingrímur kom til mín rétt fyrir kl. 8. Þegar við vorum búin að sparka foreldrum hans út :-) fórum við að horfa á Idolið saman....ruglað að vísu, en það kom ekki að sök, við heyrðum allt sem fram fór. Sá stutti var hinn rólegasti í fanginu á mér en ég var á fullu að spjalla við hann um keppendur. Hann kíkti nokkrum sinnum upp á mig, eins og til að kanna hvernig þessi klikkaða kona leit út :-) Hann varð voða spenntur fyrir Pripps lettöl, greip í dósina, opnaði munninn og ætlaði að fá sér sopa. En þar sem ég vissi að mamma myndi örugglega skamma mig þá var dósin fjarlægð. Svo var farið inn í ból, en þaðan heyrist glaðlegt blaður alveg fram til kl. 10. En eftir það varð allt hljótt og þegar ég kíkti næst var minn sofandi á hlið í rúminu með eina löpp út í loftið :-))